Blogg

1% til Regnskóganna

Hvað er um að vera?

Flestir hafa eflaust orðið varir við brunann í Amazon regnskóginum í Brasilíu á samfélagsmiðlum eða í fréttum síðustu daga en þar hefur mikill eldur dreift úr sér síðustu þrjár vikur!

Regnskógarnir eru oft kallaðir lungu jarðarinnar en það er ekki að ástæðulausu því þeir taka upp mikið magn af koltvísýringi og framleiða súrefni. Þannig hafa regnskógarnir mikil áhrif á samsetningu andrúmsloftsins sem við mannkynið og öll dýr þurfum svo sannarlega á að halda. Þetta er bara brot af mikilvægi regnskóganna.

Samkvæmt grein hjá National Geographics hafa verið 72,843 eldar á þessu ári eða 80% aukning frá því í fyrra. Fleiri en 9,000 af þessum eldum voru í liðinni viku.

Áður fyrr þökktu regnskógar heimsins um það bil 14% af þurrlendi jarðar en í dag þekja þeir aðeins um 6%. Talið er að það sé spurning um einhver 40 ár þar til þeir hverfi alveg. Ég næ eiginlega ekki alveg að ýminda mér hvernig mun fara þegar eða ef það gerist.

Mynd af bruna í Amazon regnskóginum 1989, tekið af NASA.

Þó svo að eldarnir í Amazon séu mögulega að fá mestu umfjöllina núna, þó að mínu mati alls ekki nægilega umfjöllun, að þá er einnig miklu meira um að vera í heiminum. Eldar víðsvegar, hættulegir jarðskjálftar, jöklar að hverfa, kóralrif að deyja og hitabylgjumet í mörgum löndum. Það er svo augljóst hvað er um að vera, hlýnun jarðar.

Við hjá Tropic notum mikið máltækið margt smátt gerir eitt stórt og höfum við mikla trú á því í þessu tilfelli, þegar kemur að jörðinni okkar. Ef við öll leggjum okkar af mörkum til að reyna koma í veg fyrir þessa þróun sem er að eiga sér stað þá munum við hafa áhrif. Allt er betra en ekkert. Við þurfum að bregðast við núna.

Hvað getum við gert til að hjálpa?

Það er eitt málefni sem ég get ekki hætt að tönglast á og það er blessaða pálmolían. Pálmolíuiðnaðurinn tortímir regnskógunum á miklum hraða og eyðileggja heimili orangútana en í dag eru þeir í útrýmingarhættu. Það er erfitt að sniðganga pálmolíuna því hún er svona vægast sagt allstaðar, í snyrtivörum, mat, nammi, snakki, sápum, sjampóum, hreinsiefnum, drykkjum og bara name it. Þetta venst þó, að kíkja á umbúðirnar og skanna innihaldið er minnsta mál í heimi ef maður venur sig á það. Athugið að það er samt til sjálfbær pálmolíuiðnaður og ef varan er vottuð með sjálfbærri pálmolíu þá er það gott.

Ýmsir aðrir punktar sem eru sniðugir að hafa í huga:

Þegar þú verslar þér húsgögn eða eitthvað gert úr viði þá skaltu endilega vera viss um að þú sért að styðja ábyrga skógrægt.

FSC logo stendur fyrir Forest Stewardship Council en sú viðurkenning þýðir að þú sért að styðja við ábyrga skógrækt. Oatly fernurnar eru til dæmis með þessa vottun 🙂

Image result for fsc logo
Forest Stewardship Council

Plantaðu tré eða borgaðu fyrir að láta planta trjám. Öll tré telja ? 

Afþökkum pappír. Í dag 2019 er svo auðvelt að hafa allt rafrænt ?

Endurvinnum & kaupum endurunnið ♻️

Síðast og alls ekki síst, borðum grænfæði eins oft og hægt er ?
Margir eldar í regnskógum eru gerðir af mannavöldum til að eyða skóginum og ryðja land fyrir nautgriparækt ?

Það er hægt að halda endalaust áfram þar sem okkur er gríðarlega umhugsað um þennan málstað – en ég vil benda á þessa grein hér og þessa grein hér líka ef þið viljið meiri lesningu.

Við hjá Tropic ætlum að setja 1% af allri mánaðarlegri veltu vefverslunarinnar til Rainforest Alliance. Mælum sterklega með því að þið kynnið ykkur starfsemina þeirra og vonandi munu fleiri leggja sitt af mörkum til að bjarga regnskógunum og jörðinni okkar