BLOGG

DAGUR JARÐARINNAR 2022

Í dag, 22. apríl 2022 er alþjóðlegur dagur jarðarinnar. Milljarður manna um allan heim halda þennan dag hátíðlegan en fögnuðurinn er yfirleitt í formi framlags til umhverfisins. Hvort sem það er að planta trjám, týna rusl eða styrkja góðgerðarsamtök sem gegna mikilvægum störfum á borð við verndun regnskóga og villt lífs.

Þetta árið finnst mér vert að horfa til baka á þróunina sem hefur átt sér stað síðan Tropic var stofnað í september 2018. Bambus tannburstar, fjölnota sogrör og hársápustykki voru með því fyrsta sem við tókum inn í vöruúrval en þá var það einungis fáanlegt í örfáum sérvöldum umhverfisvænum verslunum. Í dag færðu þessar vörur í næstu matvöruverslun og hefur aðgengi umhverfisvænna vara heilt yfir stóraukist.

Það þykir líka áhugavert að horfa yfir þróun matvælaiðnaðarins en mikil vitundarvakning hefur átt sér stað á heilbrigðu mataræði. Samhliða því hefur aukin dýravelferð og hlýnun jarðar orðið til þess að plöntumiðuð og lífræn matvæli hafa tekið afar há stökk á milli ára. Skýrslan Plant-Based Foods Poised for Explosive Growth eftir Bloomberg Intelligence skilgreinir vaxtavæntingar á plöntumiðaðri matvælaframleiðslu á heimsvísu en áætlað er að framleiðslan muni ná hátt upp í 161.9 milljarða bandaríkjadala árið 2030. Tropic tekur sterka afstöðu með þessari þróun og viljum við efla fræðslu á þeim ávinningum sem plöntumiðað mataræði hefur upp á að bjóða, bæði umhverfislegum og heilsufarslegum.

Þrátt fyrir að eiga langt í land á heimsmælikvarða við að ná tilsettu umhverfismarkmiði þá þykir mér mikilvægt að viðurkenna og fagna þessum árangri sem hefur náðst. Við eigum þessu klárlega að þakka kröfuhörðum neytendum. Í krafti fjöldans hafa fyrirtæki og stofnanir verið knúin til að hlusta. Ég hvet ykkur eindregið til að halda áfram.

Höldum áfram að sniðgönga óþarfa, að velja vottaðan varning, að minnka neyslu dýraafurða, að endurvinna sorpið okkar og kannski mikilvægast af öllu, höldum áfram að dreifa boðskapnum. Það er enginn fullkominn, en við getum öll gert okkar besta og þar liggur breytingin.

KRISTÍN AMY DYER
STOFNANDI TROPIC

Back to list