Matcha er á margra vörum um þessar mundir, enda er það úrvalstegund af grænu tei sem hefur margvíslegan heilsuávinning. Við ræktunina eru teblöðin varin frá beinu sólarljósi síðustu vikurnar fyrir uppskeru, sem eykur myndun ákveðinna efna, meðal annars amínósýra og klórófylls (e. chlorophyll).
Af hverju er matcha svona hollt?
Matcha er ríkt af andoxunarefnum, sem eru talin geta styrkt ónæmiskerfið og verndað frumur líkamans gegn skaðlegum sindurefnum. Matcha inniheldur einnig koffín ásamt amínósýrunni L-theanine, og samspil þessara efna getur skapað „vakandi ró“. Á þann hátt veitir matcha aukna orku án þess að valda of miklu álagi á taugakerfið
Mörgum finnst bragðið af matcha ekkert sérstakt, en ávinningurinn er svo mikill að ég hef markvisst leitað leiða til að innbyrða þessi mögnuðu lauf. Ég ákvað að blanda matcha við holla og bragðgóða sætugjafa á borð við ananas, banana og kókosmjólk. Þá tókst mér jafnframt að bæta góðu magni af spínati í drykkinn til að auka næringarefnin, án þess að draga úr bragðgæðunum.
UPPSKRIFT
1 banani
1 bolli af frosnum anans bitum
1 dl. kókosmjólk í dós (þykki hlutinn)
25 ml. af vanillupróteini (valkvæmt)
1 tsk. lífrænt matcha
Ríkuleg lúka af spínati
Dass af köldu vatni
Þessi ljúffengi drykkur er fullkominn til að byrja daginn eða sem orkuaukandi millimál. Matcha þykir mér hjálpa við að halda góðum fókus yfir daginn á meðan spínat fyllir á vítamínabirgðirnar og eykur trefjainnihald. Saman gefa þessar ofurhetjur manni ljúffengan og hollan drykk sem bæði kætir líkama og sál.
