UPPSKRIFTIR

„CREAMY“ YFIRNÓTTU HAFRAR

Margir segja að morgunverðurinn sé mikilvægasta máltíð dagsins og þar er ég alveg hjartanlega sammála. Bragðgóður og næringarríkur morgunmatur er frábær leið til að byrja daginn en persónulega upplifi ég minni sykurlöngun ef ég byrja daginn svoleiðis. Samkvæmt The European Food Safety Authority (EFSA) er ráðlagður dagskammtur af trefjum 25-35 grömm fyrir fullorðinn einstakling. Aftur á móti er aðeins um 10-30% einstaklinga í Evrópu sem mætir þeirri þörf. Eftir að hafa lært um mikilvægi þarmaflórunnar og hve jákvæð áhrif trefjar hafa á heilbrigða þarmaflóru, hef ég reynt að innbyrða nægilegt magn af trefjum yfir daginn. Þannig fékk ég æði fyrir þessum yfirnóttu höfrum en ég er alltaf spennt þegar þeir bíða mín inn í ísskáp á morgnana!

Þessir yfirnóttu hafrar eru einstaklega rjómakenndir en leyndarmálið á bakvið þykku rjómakenndu áferðina er að ég nota yfirleitt kókosmjólk úr dós. Ég hef verið að nota kókosmjólkina frá merkinu Grøn Balance en það má auðvitað nota aðra plöntumjólk.

UPPSKRIFT

1 dl. tröllahafrar
1 dl. kókosmjólk
½ dl. grísk sojajógúrt
2 tsk. chia fræ
1 msk hlynsýróp (valkvætt)
dass af salti

Þú getur síðan valið þitt uppáhalds “toppings” en ég notaði hampfræ, kakónibbur, mangó bita, bláber, banana og jarðaber. Ég viðurkenni fúslega að stundum fer auka skvetta af hlynsírópi yfir ávextina.

AÐFERÐ

  1. Blandaðu öllum hráefnum saman í skál
  2. Settu síðan blönduna í krukku eða glas
  3. Settu toppings að eigin vali ofan á
  4. Geymdu í ísskápnum yfir nóttu
  5. Njóttu í rólegheitunum 

Þess má geta að litla daman mín sem er að verða eins og hálfs árs er yfir sig ánægð með þessa útfærslu af hafragraut!

Back to list